11. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum - af málþingi LÍ

Á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn var á Akureyri 18. og 19. október var auk venjulegra aðalfundarstarfa efnt til málþings en sú hefð hefur skapast að taka hluta fundarins undir málþing um valið efni. Var að þessu sinni fjallað um lækna og samfélagsmiðla.

u03-fig1

Gerður var góður rómur að erindum frummælenda á málþingi LÍ um lækna og samfélagsmiðla á
aðalfundinum á Akureyri. Frá vinstri: Jón G. Snædal, Vilhjámur Ari Arason, Kjartan Ólafsson, Teitur
Guðmundsson og Dögg Pálsdóttir.

Fyrstur frummælenda var Kjartan Ólafsson lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og fór hann í stórum dráttum yfir hverjir samfélagsmiðlarnir væru, hvernig þeir væru notaðir og hversu gríðarleg aukning hefði orðið á notkun þeirra á fáum árum. Hann benti meðal annars á að árið 1997 hefðu aðeins 3% íslenskra 10-15 ára barna átt farsíma en árið 2009 hefði hlutfallið verið 91%.
Meðal þess sem Kjartan ræddi var öryggi netmiðlanna, en notendur væru oft lítt meðvitaðir um hversu margir hefðu aðgang að heimasíðum þeirra. Oft færi fólk mjög óvarlega með upplýsingar um persónulega hagi sína.
Það sjónarmið kom fram í umræðum að sífellt meiri tími lækna færi í að sinna alls kyns fyrirspurnum og erindum í gegnum tölvupóst og aðra miðla og minni tími gæfist til þess að sinna því sem læknarnir kynnu best og vildu helst gera. Það er að stunda læknisstörf. Væri þetta ein helsta ástæða kulnunar í starfi hjá læknum samkvæmt bandarískum rannsóknum.
 

adalfundurEkki birta persónulegar upplýsingar

Dögg Pálsdóttir lögfræðingur Læknafélags Íslands ræddi hina lögfræðilegu hlið samskiptamiðlanna og hversu mikilvægt væri fyrir lækna að gæta að því hvað þeir birtu þar og átti við bæði persónulegar upplýsingar og samskipti lækna við sjúklinga.
Hún benti á að með veraldarvefnum hefði aðgangur sjúklinga að upplýsingum gerbreyst og læknar þyrftu sérstaklega að gæta að mannorði sínu í birtingu persónulegra upplýsinga, enda gæti slíkt skaðað feril þeirra í nútíð og framtíð.
„Með öllu sem við gerum á netinu erum við að gefa af okkur mynd. Um þetta eru engin lagaákvæði og því er mikilvægt að styðjast við almenna skynsemi og heilbrigða dómgreind.“
Dögg benti á siðareglur LÍ í þessu samhengi en þar er skýrt áréttað hvaða siðferðilegu kröfur fylgja læknisstarfinu. Hún benti að lokum á leiðbeiningar Persónuverndar um hvernig hægt sé takmarka aðgang að fésbókarsíðum, að læknar skyldu í öllum tilfellum virða ákvæði siðareglna LÍ, birta aldrei upplýsingar um sjúklinga, samþykkja aldrei vinabeiðnir sjúklinga sinna á fésbók, og svo að lokum einföld en skýr ráðlegging frá lögfræðingnum:
„Ef þú vilt ekki að einhver frétti af einhverju skaltu sleppa því að segja frá því.“
Fram kom í umræðum um þetta efni að stundum væru það sjúklingar sem birtu upplýsingar um sjúkrasögu sína á netinu og lýstu þar óhikað reynslu sinni af meðferð og læknisheimsóknum. Þar væri stundum farið rangt með staðreyndir og sagður hálfsannleikur en læknar ættu mjög erfitt með að bregðast við slíku og hvort það hefði ekki afgerandi áhrif á trúnaðarsamband læknis og sjúklings.
Dögg sagði þetta sannarlega vandamál en hún væri þó ekki sammála því að læknir mætti ekki svara ef sjúklingur er búinn að viðra samskipti sín við lækni opinberlega. „Hvort það þjónar tilgangi er annað mál. Ég hef alltaf haldið því fram að ef sjúklingur opnar fyrir sína sjúkrasögu felst í því ákveðið samþykki hans fyrir því að opinberlega sé um hana fjallað. Læknar hafa síðan það ráð að segja upp slíku trúnaðarsambandi.“
Vilhjálmur Ari Arason tók næstur til máls en hann hefur um nokkurra ára skeið bloggað um fjölmargt er snertir læknisfræði, heilbrigðismál og heilbrigðisþjónustu. Var greinilegt að kollegar hans kunnu að meta framtak hans og var honum óspart hrósað fyrir skrif sín. Hann var óánægður með hversu sjaldan væri tekið undir með skoðunum hans en oftar heyrðist gagnrýni. Aðspurður um ógnanir vegna skrifanna sagði Vilhjálmur frá öfgakenndum viðbrögðum vegna skoðana sinna á nauðsyn lögleiðingar hjólahjálma. Einnig að hann hefði verið beðinn um að fara varlega í skrifum sínum um PIP-brjóstapúðana.
 

Ný lög auðvelda auglýsingar

Jón Snædal ræddi lækna og auglýsingar og fór yfir gildandi lagaumhverfi sem takmarkar mjög möguleika lækna á að auglýsa starfsemi sína. Með nýjum lögum um heilbrigðisstarfsfólk sem taka gildi 1. janúar 2013, verður auðveldara að auglýsa og kynna læknis- og heilbrigðisþjónustu af ýmsu tagi.
„Við erum að sigla inn í nýtt og breytt lagalegt og tæknilegt umhverfi og þurfum að bregðast við því. Það er mikilvægt að fylgjast með þróuninni,“ sagði Jón Snædal.
Í umræðum kom fram að með nýju lögunum verða læknar ein af 33 skilgreindum heilbrigðisstéttum sem eflaust verða í samkeppni hver við aðra. Spurt var hvort eftirlit yrði með því hvernig hópar og einstaklingar auglýsa starfsemi sína og svarið var að velferðarráðuneytið hefði ekki í hyggju að setja sérstaka reglugerð um auglýsingar á þessu sviði. Fram kom einnig að fjölmargar stofnanir og fyrirtæki á heilbrigðissviði héldu úti öflugum heimasíðum og líta mætti á þær sem auglýsingar. Þótti sumum reyndar sem skrumkenndar upplýsingar um fjölskylduhagi, gæludýr og áhugamál væru hlægilegar og drægju úr virðingu lækna.
Þá var einnig bent á að núverandi takmarkanir á auglýsingum væru gamaldags og alls ekki í samræmi við nútímann. Var viðruð sú von að nýju lögin geri mönnum kleift að birta ítarlegar upplýsingar um starfsemi sína, almenningi til upplýsingar.
Var gerður góður rómur að efni þessa málþings og margir tóku undir þau orð Teits Guðmundssonar, sem var síðastur frummælenda, að mikilvægt væri fyrir lækna að vera sýnilegri í samfélaginu og tjá óhikað skoðanir sínar á opinberum vettvangi. Þá var orðuð hvatning til Læknafélags Íslands að hafa meira frumkvæði í hlutverki sínu gagnvart almenningi.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica