01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Úr reglugerð Heilbrigðisráðuneytisins um tilhögun veitinga sérfræðileyfa og skipan sérfræðinefndar

8. gr.

Heimilt er að veita sérfræðileyfi lækni, sem lokið hefur viðurkenndu sérfræðinámi, sérfræðiprófi eða fengið sérfræðileyfi í löndum, sem gera sambærilegar kröfur um sérfræðinám og gert er í þessari reglugerð. Þetta er heimilt þótt námstilhögun sé frábrugðin ákvæðum 7. greinar. Veita má sérfræðileyfi í öðrum greinum en þeim er að framan greinir, ef fullnægt er kröfum um sérmenntun að mati sérfræðinefndar og umsækjandi hefur sérfræðiviðurkenningu frá öðru landi. Sérfræðinefnd úrskurðar á sama hátt um veitingu sérfræðileyfa í nýjum undirgreinum. Sérreglur gilda um sérfræðileyfi sem uppfylla skilyrði EES-samningsins sbr. reglugerð nr. 244/1994.

9. gr.

Heimilt er að synja lækni um sérfræðiviðurkenningu, þótt hann hafi fullnægt ákvæðum þessarar reglugerðar, ef sérfræðinefnd læknadeildar telur að námið hafi ekki verið nægilega samfellt eða að óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að hann lauk samfelldu sérnámi og þar til umsókn barst.

10. gr.

Ráðherra skipar 3 lækna til að fara yfir og úrskurða um umsóknir til sérfræðileyfis, sérfræðinefnd. Skal einn vera úr hópi kennara læknadeildar og er hann formaður nefndarinnar, annar skal tilnefndur af LÍ og sá þriðji er forstöðumaður kennslu í þeirri grein sem til umfjöllunar er hverju sinni. Við afgreiðslu umsókna skal þegar við á, fulltrúi viðkomandi sérgreinafélags boðaður á fund nefndarinnar. Fulltrúi læknadeildar og LÍ skulu skipaðir til 4 ára. Þeir annast fyrir hönd læknadeildar túlkun og endurskoðun reglugerðarinnar í samráði við stjórn og sérgreinafélög LÍ. Komi upp ágreiningur í nefndinni skal skjóta honum undir úrskurð læknadeildar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica