02. tbl 92. árg. 2006

Ritstjórnargrein

Hættan á heimsfaraldri af völdum inflú­ensu A og viðbúnaður við honum

Haraldur Briem hbriem@landlaeknir.is Haraldur is Chief Epidemiologist of the Directorate of Health

The risk og influenza pandemic and the preparedness against it

Inflúensa A birtist okkur í mörgum myndum. Ár­lega ganga yfir faraldrar sem eru leifar heimsfar­aldra inflúensu vegna smávægilegra breytinga á mótefnavökum inflúensuveirunnar. Gegn þessum faröldrum eru menn að hluta til varðir vegna kross­ónæmis frá eldri sýkingum. Mögulegt er að verjast með bólusetningu vegna þess að unnt er sjá fyrir með nokkurri vissu hvaða inflúensustofnar munu ganga yfir á hverjum vetri. Heimsfaraldrar af nýjum inflúensustofnum sem menn hafa ekki ónæmi fyrir ganga yfir tvisvar til þrisvar á öld hið minnsta. Nú eru liðin tæp 40 ár frá því síðasti heimsfaraldurinn reið yfir og þess vegna telja flestir að skammt sé í næsta faraldur.

Inflúensuveira A er sameiginlegur sjúkdóms­valdur manna og dýra en andfuglar eru náttúrulegir hýslar veirunnar og bera hana í görnum. Heimsfaraldur verður ef í fyrsta lagi nýr stofn af inflúensu birtist í dýraríkinu, í öðru lagi ef þessi nýi stofn berst í menn og í þriðja lagi ef hann getur bor­ist greiðlega milli manna. Fyrstu tvö skilyrðin fyrir heimsfaraldri inflúensu eru nú þegar fyrir hendi. Spurningin er hvort þessi nýi stofn af inflúensu A (H5N1) færist á þriðja stig og fari að berast milli fólks. Þessu er ómögulegt að svara með vissu.

Ekki hefur tekist að ráða niðurlögum inflúensu­faraldursins sem gengur um þessar mundir í fuglum. Hann hófst í Hong Kong 1997 og hefur síðan breiðst út um SA-Asíu og þaðan til Síberíu og á síðasta ári til nokkurra landa í SA-Evrópu. Víst er að því lengur sem faraldurinn varir í fuglum því meiri verða líkurnar á því að breytingar verði á erfðaefni H5N1 veirunnar sem leitt geta til heimsfaraldurs í mönnum.

Er ástæða til að grípa til viðbúnaðaraðgerða vegna heimsfaraldurs þegar ekki er vitað hve­nær hann ríður yfir? Í heimsfaraldri má búast við meiri útbreiðslu, mun alvarlegri einkennum, hærri dánartíðni og röskun á allri starfsemi samfélagsins en gerist í árstíðabundnum inflúensufaröldrum. Ekki er unnt að fullyrða hversu þungt slíkur faraldur muni leggjast á fólk. Á síðustu öld voru faraldrar misskæðir. Spænska veikin árið 1918 lagði að velli 50-100 milljónir manna í heiminum. Asíuinflúensan 1957 og Hong Kong inflúensan 1968 voru mun vægari en ollu engu að síður talsverðum umframdauðsföllum.

Fyrri heimsfaraldrar inflúensu skullu á fyrirvara­laust. Í fyrsta sinn í sögunni geta menn fylgst með heimsfaraldri inflúensu A í fæðingu. Með öflugu alþjóðlegu vöktunar- og greiningarkerfi er vonast til að unnt verði að stöðva slíkan faraldur í upphafi. Skiptir samstarf við dýralækna miklu máli. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gegnir þar lykilhlutverki í samvinnu við Alþjóðadýrasjúk­dómastofnunina (OIE). Á síðasta ári samþykkti alþjóðaheilbrigðisþingið reglugerð sem tekur gildi 15. júní 2007 og verður skuldbindandi fyrir þjóðir heims. Reglugerðin er um vöktun og viðbrögð við alþjóðlegri útbreiðslu sjúkdóma. Vegna hugsanlegs heimsfaraldurs ákvað framkvæmdastjórn WHO í janúar 2006 að hvetja þjóðir heims til að taka strax í gildi greinar reglugerðarinnar um vöktun og viðbrögð við nýjum stofni af inflúensu A.

Bóluefni gegn nýjum stofni af inflúensu A og inflúensulyf eru mikilvæg við að hefta og hægja á útbreiðslu heimsfaraldurs inflúensu. Bóluefni verður af skornum skammti í upphafi slíks faraldurs vegna takmarkaðrar framleiðslugetu lyfjaiðnaðarins. Ísland hefur hvatt til þess að Norðurlöndin reisi verksmiðju til að framleiða inflúensubóluefni. Niðurstaða hefur ekki fengist en á meðan ákvörðunar er beðið verður reynt að kaupa "heimsfarald­urstryggingu" sem á að setja Ísland í forgang þegar framleiðsla bóluefnis hefst. Veirulyf (neuraminidasa hamlar) sem geta stytt sjúkdómstíma og dregið úr einkennum sjúkdómsins verða mikilvæg ef þau eru notuð rétt. Í árslok 2005 voru til 89.000 meðferðarskammtar í landinu sem aðeins er heimilt að nota í heimsfaraldri. Verið er að kanna kaup á frekari lyfjabirgðum. Unnið er að því að tryggja nægar öryggisbirgðir dreypilyfja og önnur nauð­syn­leg lyf, hlífðarbúnað og veiruheldar grímur fyrir þá sem stunda inflúensusjúklinga í návígi.

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra skipuleggur almennar sóttvarnaráðstafanir, svo sem einangrun, afkvíun, lokun skóla og samkomubann (social distancing) og aðgerðir til að tryggja nauðsynlega starfsemi í landinu. Mikilvægt verður að vernda spítala svo þeir geti sinnt veikasta fólkinu. Heilsugæslan í landinu mun gegna þýðingarmiklu hlutverki við að sinna veiku fólki í heimahúsum. Æskilegt er að veikt fólk haldi sig heima og því nauðsynlegt að sjá því fyrir vistum þar.

Viðbúnaðaráætlun við heimsfaraldri inflúensu er flókið verk. Á komandi mánuðum og árum verð­ur unnið að því að þróa áætlunina og kynna hana fyrir heilbrigðisstarfsmönnum, löggæslu- og hjálparsveitafólki og almenningi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica