10. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Frá stjórn Lífeyrissjóðs lækna:

Tillaga um sameiningu Lífeyrissjóðs lækna og Almenna lífeyrissjóðsins

Stjórn Lífeyrissjóðs lækna leggur til að lífeyris­sjóðurinn sameinist Almenna lífeyrissjóðnum frá og með 1. janúar 2006. Tillaga þess efnis verður lögð fyrir sjóðfélaga í póstkosningum í október. Markmiðið með sameiningunni er að tryggja læknum hærri lífeyri í framtíðinni með því að lækka kostnað og auka áhættudreifingu.

Sjóðfélagar í Lífeyrissjóði lækna munu kjósa um sameininguna í póstkosningum sem efnt verður til í framhaldi af sjóðfélagafundi sem verður haldinn í október. Allir sjóðfélagar munu fá senda atkvæðaseðla sem þeir geta sent til baka innan ákveðins frests. Póstkosningin tekur þrjár til fjórar vikur. Sjóðfélagar í Almenna lífeyrissjóðnum kjósa um sameininguna á sjóðfélagafundi sem verður í nóvember þegar niðurstaða póstkosningar hjá læknum liggur fyrir.

Rökin með sameiningu sjóðanna eru eftirfarandi:

  • Kostnaður lækkar. Áhættudreifing eykst. Líkur á hækkun lífeyrisgreiðslna aukast.
  •  Stærri sjóður getur veitt betri þjónustu.
  •  Fjárfestingaráhætta sjóðfélaga og lífeyrisþega verður aðskilin. Öryggi lífeyrisþega eykst.

Rökin gegn sameiningu sjóðanna eru fyrst og fremst þau að áhrif lækna í stjórn minnka. Til að byrja með fá læknar þrjá fulltrúa af níu í stjórn en í framtíðinni verður stjórnin kosin af sjóðfélögum. Samsetning sameinaðs sjóðs verður þannig að læknar hafa alla burði til að tryggja ítök í stjórn. Önnur rök eru að lagt er til að ávinnsla makalífeyrisréttinda breytist í framtíðinni. Samkvæmt samþykktum sameinaðs lífeyrissjóðs er gert ráð fyrir að við fráfall verði greiddur tímabundinn makalífeyrir til maka en ekki ævilangur eins og í Lífeyrissjóði lækna.

Stjórn Lífeyrissjóðs lækna telur að rökin með sameiningu sjóðanna séu mikilvægari en mótrökin og leggur til að læknar samþykki tillöguna.

Við hvetjum lækna eindregið til að kynna sér vel þetta mikla hagsmunamál og taka upplýsta ákvörðun. Á heimasíðu sjóðsins, www.llaekna.is eru nánari upplýsingar.

Fimmti stærsti lífeyrissjóðurinn

Verði tillaga um sameiningu sjóðanna samþykkt verður sameinaður lífeyrissjóður Lífeyrissjóðs lækna og Almenna lífeyrissjóðsins fimmti stærsti lífeyrissjóðurinn með um 24 þúsund sjóðfélaga og heildareignir um 60 milljarða. Sé miðað við árleg iðgjöld er sjóðurinn sá fjórði stærsti hér á landi.

Við sameininguna verður til samtryggingar­sjóð­ur með um 5000 virka greiðendur. Virkir greiðendur í Lífeyrissjóð lækna í dag eru tæplega 1000 sem tryggingafræðingar telja vera of fámennan hóp til þess að tryggja viðunandi áhættudreifingu til lengdar.

Sameining sjóðanna leiðir til mikils hagræðis og benda útreikningar til þess að rekstrarkostnaður geti lækkað verulega í samanburði við núverandi kostnað. Með stærri sjóði eykst áhættudreifing og sjóðurinn er betur í stakk búinn að standa við skuldbindingar sínar. Öryggi sjóðfélaga eykst.

Nafn sameinaðs sjóðs ákveðið með fyrirvara

Tillögur um sameiningu sjóðanna byggja á samkomulagi um eftirfarandi atriði.

1. Áunnin lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði lækna og samtryggingarsjóði Almenna lífeyrissjóðsins haldast óbreytt.

2. Nýr samtryggingarsjóður verður með nýju fyrirkomulagi sem gerir kleift að aðskilja fjárfestingaráhættu lífeyrisþega og sjóðfélaga.

3. Nafn sameinaðs lífeyrissjóðs verður Almenni lífeyrissjóðurinn. Til greina kemur að skipta um nafn ef góð tillaga kemur fram.

4. Aðild að sjóðnum verður opin en sjóðurinn er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögu­manna, lækna, tæknifræðinga og tónlistar­manna.

5. Sameinaður sjóður mun bjóða ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins. Stjórn sjóðsins mun skoða hvort ástæða sé til að bjóða fleiri ávöxtunarleiðir.

6. Sjóðurinn mun endurskoða lánareglur sjóðfélagalána. Þessu er lokið og hafa stjórnir sjóð­anna samræmt lánareglur þeirra.

Fleiri lífeyrissjóðir stefna á sameiningu

Lífeyrissjóðum á Íslandi hefur á undanförnum árum fækkað verulega. Árið 1980 voru starfandi 96 lífeyrissjóðir á Íslandi en um mitt ár 2005 eru starfandi 48 lífeyrissjóðir. Í stefnumótun Landssamtaka lífeyrissjóða frá árinu 2002 spáðu samtökin því að lífeyrissjóðum muni á næstu árum fækka með sameiningum í 20 til 30 sjóði (jafnvel meir) á næstu 10 til 15 árum. Þessi spá virðist ætla að ganga eftir. Á árunum 2003 og 2004 sameinuðust fjórir lífeyris­sjóðir. Á þessu ári sameinuðust Lífeyrissjóður sjómanna og Framsýn í Gildi lífeyrissjóð 1. júní sl. og Lífeyrissjóður Suðurnesja og Suðurlands þann 1. júlí sl. Nokkrir aðrir lífeyrissjóðir stefna að sameiningu.

  •  Samvinnulífeyrissjóðurinn og Lífiðn hafa und­ir­ritað viljayfirlýsingu um sameiningu sjóð­anna.
  •  Lífeyrissjóður Suðurlands og Lífeyrissjóður Vesturlands eru í viðræðum.

Verði þessar sameiningar að veruleika auk sam­einingar Lífeyrissjóðs lækna og Almenna lífeyris­sjóðsins fækkar lífeyrissjóðum um sex á einu ári. Sameining lífeyrissjóða er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Í Sviss, sem er ein þeirra þjóða sem standa hvað best í lífeyrismálum, eru til dæmis starfandi um 11 þúsund lífeyrissjóðir en þeir voru um 17 þúsund árið 1980.

Áunnin réttindi verða óbreytt, vægi séreignarsjóðs eykst í framtíðinni

Verði sameiningin samþykkt munu áunnin réttindi í Lífeyrissjóði lækna haldast óbreytt en læknar munu ávinna sér réttindi í sameinuðum sjóði frá 1. janúar 2006.

Lágmarksiðgjald í sameinuðum lífeyrissjóði verður 10% af launum og skiptist þannig að 2% greiðast í séreignarsjóð og 8% í samtryggingarsjóð. Lágmarksiðgjald í Lífeyrissjóð lækna er hins vegar 11% af launum og greiðist allt í samtryggingar­sjóð. Tilgangurinn með þessari breytingu er að auka svigrúm sjóðfélaga þegar kemur að töku lífeyris en kosturinn við séreignarsjóði er að sjóðfélagar hafa meira val um hvernig þeir fá greiddan lífeyri.

Ávinnsla makalífeyris breytist en læknar geta tryggt maka fjölskyldulífeyri í staðinn

Helsta breytingin á framtíðarréttindum er að reglur um makalífeyri breytast. Sameinaður lífeyrissjóður mun ekki tryggja ævilangan makalífeyri eins og verið hefur í Lífeyrissjóði lækna. Á síðustu árum og áratugum hafa flestir lífeyrissjóðir breytt makalífeyrisréttindum úr ævilöngum lífeyri í tímabundinn. Með því að breyta makalífeyrisréttindum lækna er hægt að auka elli- og örorkuréttindi.

Til að hjálpa sjóðfélögum að aðlagast þessum breytingum verður keypt hóplíftrygging í 10 ár fyrir virka sjóðfélaga og nemur fjárhæð líftryggingabóta verðmæti skuldbindingar vegna framreiknaðra rétt­inda hvers og eins eftir skatta. Til viðbótar verður læknum gefinn kostur á að hluta af eftirlaunaréttindum verði varið til

1) að tryggja maka fjölskyldulífeyri (eingreiðslu) ef sjóðfélagi fellur frá fyrir 67 ára aldur. Fjárhæðin lækkar með aldrinum þar sem séreignarsjóður sem erfist við fráfall byggist upp á móti.

2) að greiða í séreignarsjóð (sinn eða maka) allt að 20% af eftirlaunaréttindum.

Með þessum viðbótaraðgerðum geta læknar gert maka jafnvel settan ef sjóðfélagi fellur frá eins og þeir hefðu verið ef lífeyrissjóðurinn tryggði áfram ævilangan makalífeyri.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Líf­eyr­issjóðs lækna www.llaekna.is Þar er meðal annars hægt að lesa tillögu um samþykktir fyrir sameinaðan lífeyrissjóð og geta sjóðfélagar skoðað hvaða áhrif sameiningin hefur á þeirra lífeyrisréttindi með því að skrá sig inn á læstan vef.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica