04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Bréf Jóns Steffensen til menntamálaráðherra

Í framhaldi af viðtali mínu og Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar þ. 20. þ.m. við yður herra menntamálaráðherra vil ég gera eftirfarandi, frekari grein fyrir hugmynd minni og tilboði viðvíkjandi Nesstofu.

Meðan Kristín eiginkona mín var á lífi, var það gamalt áhuga­mál okkar, að Nesstofa yrði varðveitt eftir því sem gerlegt reyndist, í þeirri mynd er hún var reist í utanhúss, og innanhúss að því er tæki til lækningastofu og lyfjabúðar. En hinn hluti hússins yrði skipulagður með það fyrir augum, að hann þjónaði sem best því hlutverki að vera í senn safn og rannsóknarstofnun á sviði sögu heilbrigðismála.

Hér er um tvíþætt verkefni að ræða. Í fyrsta lagi er um friðun og varðveislu húss að ræða, sem þjóðminjalög nr. 52 19. maí 1969 gilda um, og má segja, að frá þeim þætti sé að nokkru gengið þar, sem fyrir hendi er heimild Alþingis til að ríkið kaupi Nesstofu í þeim tilgangi. Eftir stendur að ríkið gangi frá kaupum á henni og taki ákvörðun um hvaða hlutverki hún skuli gegna jafnframt því að vera varðveittar þjóðminjar.

Í öðru lagi er um safn og rannsóknarstofnun á sviði sögu læknisfræðinnar að ræða, sem er nýmæli og því nauðsynlegt að ákveða verksvið hennar og stöðu gagnvart þeim aðilum er hér eiga hlut að máli. Jeg gæti hugsað mér, að nefnd ynni að málinu, skipuð þeim aðilum er hér koma mest við sögu s.s. menntamálaráðuneytinu, sem væntanlega hefði forgöngu um málið og skipaði formann hennar. Aðrir nefndarmenn gætu verið frá eftirfarandi aðilum: heilbrigðis- og fjármálaráðuneytunum, Þjóðminjasafni, Háskóla Íslands, læknadeild og Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar.

Ég vil hér gera nokkra grein fyrir þætti hinna fjögra síðast töldu aðila í þessu máli. Á vegum Þjóðminjasafns yrðu varðveisla Nesstofu, og það á nokkuð af munum er viðkoma sögu heilbrigðismála, en er auk þess samkv. 2. gr. þjóðminjalaga ?miðstöð allrar þjóðminjavörslu í landinu?. Læknadeild á einnig nokkuð af munum, sem hafa sögulegt gildi, og á hinum ýmsu stofnunum hennar, sjúkrahúsum og rannsóknarstofum fellur að staðaldri til talsvert af munum, sem ekki eru lengur nothæfir, en margir hverjir hafa sögulegt gildi. Þessir munir eru nú flestir tortímingunni ofurseldir, bæði er að engum á þessum stofnunum er uppálagt að annast um slíka hluti, og þeir sem áhuga hafa á því eiga mjög óhægt með það sökum þrengsla, sem þessar stofnanir eiga við að búa. Það er því mjög brýnt að sem fyrst megi skapast aðstaða til varðveislu muna af þessu tagi, sem þegar hafa allt of margir glatast.

Á einu sviði hefur um margra ára skeið verið náin samvinna milli Þjóðminjasafns og einnar stofnunar læknadeildar, rannsóknarstofu háskólans í líffærafræði. Hún hefur tekið til rannsóknar og varðveislu þau mannabein, sem grafin hafa verið upp á vegum Þjóðminjasafns og því hafa borist. Það er eftir sem áður eigandi beinanna úr heiðni, en um flest hinna beinanna hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um eignaréttinn, enda frekar lítilsvert. Það sem mestu máli varðar er að þau eru þjóðareign í vörslu ríkisstofnana og með þau farið sem heimildir um sögu þjóðarinnar. Sum þessara beina eru með áberandi sjúklegum breytingum og væri eðlilegast að varðveita þau í safni rannsóknarstofnunar sögu læknisfræðinnar, bæði sem sýningargripi og til rannsókna á sögu sjúkdómanna. Heilbrigðu beinin færi best á að þau yrðu áfram á vegum rannsóknarstofu í líffærafræði, en bæði beinasöfnin þurfa að vera aðgengileg til rannsókna.

Að öðru leyti yrði þáttur háskóla og læknadeildar sá, að efla getu rannsóknarstofnunar sögu læknisfræðinnar, til þekkingaröflunar og miðlunar á sínu sérsviði. Forstöðumaður stofnunarinnar teldist til kennaraliðs læknadeildar, án þess þó, að þar með sé verið að hugsa um sögu læknisfræðinnar sem skyldunám við þá deild, enda á sviði fyrirhugaðrar nefndar að fjalla um það. En æskilegt væri að forstöðumaðurinn flytti árlega nokkra fyrirlestra um sögu læknisfræðinnar svo þeim sem áhuga hefðu á því gæfist kostur á nokkurri fræðslu í henni. Ennfremur leiðbeini hann þeim er hafa hug á ákveðnu rannsóknarefni til úrvinnslu í stofnuninni.

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar var stofnað 18. des. 1964 til að efla þekkingu á sögu læknisfræðinnar og jafnframt með það í huga að skapa íslenskan samstarfsaðila að Nordisk medicinhistorisk Årsbok, sem hliðstæð félög á hinum Norðurlöndunum stóðu að. Frá og með árbók 1965 hefur íslenska félagið verið meðútgefandi hennar og félagar þess lagt til efni í hverja árbók. Ef rannsóknarstofnun sögu læknisfræðinnar kæmist á laggirnar, þá yrði hún sjálfsagður aðili að útgáfu árbókarinnar, en Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar yrði þá að styrktarsamtökum stofnunarinnar á líkan hátt og Fornleifafélagið er nú samtök manna til styrktar starfsemi Þjóðminjasafns.

Ef ríkisstjórn Íslands getur fallist á þau meginsjónarmið er hér hafa verið sett fram og kaupir Nesstofu og afhendir Þjóðminjasafni til umræddra nota, vorum við hjónin búin að ákveða að afhenda ríkinu tvær milljónir króna til lagfæringa á Nesstofu. Þessu framlagi myndi ég vilja haga svo að helminginn afhenti ég á þessu ári og hinn helminginn á næsta ári. Og er það þá hugmynd mín, að undirbúningsvinna gæti hafist sem allra fyrst svo unnt væri að hefja vinnu við húsið þegar er það losnaði.

Síðar meir er línurnar tækju að skýrast og sýnt væri að þær vonir er ég bind við framtíð rannsóknarstofnunar sögu læknisfræðinnar muni rætast, hefi ég hugsað mér að það af bókasafni mínu er hefur gildi fyrir sögu læknisfræðinnar, en meginstofninn í því hefur sérstakt gildi fyrir sögu íslenskra heilbrigðismála, renni til stofnunarinnar.

Reykjavík 23. september 1972.

Virðingarfyllst

Jón Steffensen

Til Menntamálaráðherra.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica