12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Félagið er afsprengi norrænnar samvinnu

Ráðstefna til minningar um Jón Steffensen

- Rætt við Atla Þór Ólason formann Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar en félagið verður fertugt á jólaföstunni

Í þessu blaði er boðað ráðstefnuhald í tilefni af aldarafmæli Jóns Steffensen læknis. Hann kom víða við á æviferli sínum og eitt af því sem hann tók sér fyrir hendur var að gangast fyrir stofnun Félags áhuga­manna um sögu læknisfræðinnar. Nú er það félag að verða fertugt og af því tilefni ræddi Læknablaðið við núverandi formann þess, Atla Þór Ólason bæklunarlækni.

Atli upplýsti að afmælisdagur félagsins væri 18. des­ember en þann dag árið 1964 komu 47 karlar og ein kona saman til stofnfundar í húsakynnum Háskóla Íslands. "Nú eru konur í meirihluta í stjórn félagsins og þær segja að þetta hafi greinilega verið algert karla­félag. Það er ekki nóg með að karlar hafi verið í yfir­gnæfandi meirihluta félagsmanna heldur er félagið stofnað í miðjum jólaönnum en það hefði engri konu dottið í hug að gera," segir Atli og brosir.

Að öllu gamni slepptu má segja að félagið sé afsprengi norrænnar samvinnu og áhuga Læknafélags Reykjavíkur.

"Félagið var stofnað til að vera samstarfsaðili fyrir Íslands hönd við gerð Nordisk Medicinsk Årbog sem gefin var út í 1600 eintökum af læknasögufélögunum á Norðurlöndum. Hún kom fyrst út 1953 á vegum Lækna­minjasafnsins í Stokkhólmi en um 1960 bættust læknasögufélögin í Danmörku, Noregi og Finnlandi í hópinn. Jón Steffensen var beðinn að taka þátt í þessu starfi árið 1962 og þá fór hann að huga að stofnun félags um sögu læknisfræðinnar eins og tíðkuðust á Norðurlöndum.2004-10-front

Hvatinn innanlands kemur hins vegar frá stjórn Læknafélags Reykjavíkur sem færði það í tal við Jón að stofna félag til eflingar áhuga á sögu læknisfræðinnar. Jón tók þessu tækifæri feginshendi og boðaði til stofnfundar. Þangað komu 48 manns, flestallt læknar en þó voru meðal stofnenda áhugamenn um sögu og menningu á borð við Kristján Eldjárn, Magnús Má Lárusson, Einar Ólaf Sveinsson og Jakob Benediktsson. Í fyrstu stjórn voru kosnir þeir Jón Steffensen formaður, Ólafur Bjarnason læknir og Birgir Einarsson apótekari," segir Atli.

Söfnun og varðveisla lækningaminja

Á stofnfundinum lýsti Jón Steffensen meðal annars hugsanlegum verkefnum félags af þessu tagi og segir Atli að sú stefnuyfirlýsing sé enn í fullu gildi, að því frátöldu að útgáfa áðurnefndrar árbókar lagðist af árið 1994. Í lögum félagsins segir að tilgangur félagsins sé "að efla þekkingu á sögu læknisfræðinnar með hverjum þeim ráðum, er þjóna því sjónarmiði, s.s. með því að styðja rannsóknir á sögu læknisfræðinnar, útgáfu rita og varðveizlu minja."

"Jón var formaður félagsins til dauðadags árið 1991 og hann var einnig aðalrannsakandinn, stundaði beinarannsóknir, rannsóknir á skjölum og hélt fyrirlestra innan og utan félags. Fleiri læknar stunduðu sögulegar rannsóknir og fjölluðu um þær á fræðslu­fundum. Félagið rækti þessar skyldur sínar nokkuð vel en eftir daga Jóns hafa þessar rannsóknir einkum verið í höndum sagnfræðinga, mannfræðinga og fornleifa­fræðinga. Erlendis eru starfræktar fjölmargar stofn­anir sem sinna rannsóknum og kennslu í sögu læknis­fræðinnar, í Þýskalandi einu eru þær á þriðja tug.

Varðveisla lækningaminja var eitt helsta verkefni fé­lagsins og áhugamál Jóns. Fjölmargir munir söfn­uð­ust og Jón kom því til leiðar að þessir munir voru afhentir Þjóðminjasafni til varðveislu. Stóri draum­ur­inn var að Nesstofa yrði keypt og komið í upprunalegt form þar sem hægt yrði að hafa safn um sögu læknisfræðinnar og gekk það eftir. Jón lagði fram eigið fé til uppbyggingar Nesstofusafns og arfleiddi Læknafélag Íslands að allri peningaeign sinni sem skyldi varið óskiptri til framtíðarhúsnæðis safns­ins. Byggingarnefnd nýrrar safnbyggingar starf­aði ötullega um árabil undir forystu formanna Félags áhuga­manna um sögu læknisfræðinnar, þeirra Gunn­laugs Snædal og Halldórs Baldurssonar, og efnt var til samkeppni um teikningar sem liggja fyrir. Hins veg­ar fékkst ekki viðbótarfé til framkvæmdarinnar frá ríkinu, meðal annars vegna fjárfrekra endurbóta Þjóð­­minjasafns og er því byggingarmálið í biðstöðu. Erfða­fé Jóns var notað til að kaupa geymsluhúsnæði í Bygggörðum í grennd við Nesstofu og Læknafélag Íslands lagði fram fé til endurbóta á því."

Norrænt þing á næsta ári

Þótt norræna árbókin komi ekki lengur út hefur félagið verið virkt í norrænu samstarfi en á Norður­löndum eru um 5000 skráðir félagsmenn í 25 lækna­sögufélögum.

"Félögin halda þing annað hvert ár og við höfum haldið það tvisvar, 1981 og 1995, og það verður eitt helsta verkefni félagsins á afmælisárinu að undirbúa og halda næsta norræna læknasöguþing í ágúst á næsta ári. Við fengum því framgengt að tungumál þingsins verður enska og að þingið verði auglýst utan Norður­landa. Meginefni þingsins er sjúklingur og samfélag en þar verður fjallað um farsóttir á norðurslóðum, læknisfræði og alþýðuvísindi, konur í læknisfræði, læknisfræði víkingatímans og ýmislegt fleira. Síðast þegar þingið var haldið hér á landi voru þátttakendur um 100 og við eigum von á að þeir verði ekki færri núna.

Á læknasöguþinginu 1981 barst félaginu fyrirheit frá dönskum lyfjafræðingi, Poul Assens, um að hann kostaði árlega för fyrirlesara frá Norðurlöndum til Íslands til að halda fyrirlestur um sögu læknisfræðinnar. Poul starfrækti fyrirtækið Biopharma í Danmörku og það hefur haldið áfram að styrkja þessa fyrirlestra eftir að hann féll frá árið 1992. Poul var mikill vinur Egils Snorrasonar, læknis af íslenskum ættum sem starfaði í Danmörku og var meðal annars yfirlæknir Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Fyrirlestrarnir eru nefndir eftir Agli og nú í lok október var slíkur fyrirlestur haldinn í 23. sinn. Félagið er afar þakklátt fyrir þennan vináttuvott sem því er sýndur enda hafa fyrirlestrarnir lífgað mikið upp á starfsemi þess.

Auk þessa starfs hefur félagið unnið að því að kynna starfsemi sína meðal lækna og annars áhugafólks og það hefur borið þann árangur að nú eru félagsmenn um 130. Það blundar mikill áhugi á sögu meðal lækna enda speglar hún sjálfsvitund stéttarinnar. Aðrar stéttir á borð við sagnfræðinga, félagsfræðinga, mannfræðinga og fornleifafræðinga sýna sögu læknisfræðinnar aukinn áhuga og það gefur greininni og starfi félagsins nýja vídd," segir Atli Þór Ólason formaður.

Auk Atla skipa stjórn félagsins þau Vilhelmína Haraldsdóttir blóðsjúkdómafræðingur sem er ritari, Óttar Guðmundsson geðlæknir er gjaldkeri og meðstjórnendur þær Kristín Einarsdóttir lyfjafræðingur og Þórunn Guðmundsdóttir sagnfræðingur. Félagið heldur úti heimasíðu sem áhugamenn um lækningasögu ættu að gera að bókamerki í netvafranum sínum en veffangið er icemed.is/saga/



Þetta vefsvæði byggir á Eplica