11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Kjör heiðursfélaga LÍ á aðalfundi

Páll Sigurðsson f. 9. nóvember 1925 í Reykjavík.

Páll Sigurðsson lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 31. janúar 1952. Hann varð sérfræðingur í bæklunarlækningum 1956. Hann fékk diploma­gráðu í lýðheilsufræði við háskólann í Bristol 1970 og sérfræðiviðurkenningu í embættislækningum 1972.

Páll starfaði í sérgrein sinni, bæklunarlækningum, til 1970 en gegndi jafnframt stöðu tryggingayfirlæknis frá árinu 1960. Á þessum árum gegndi Páll fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir lækna, sat í stjórnum félaga þeirra og var m.a. formaður Skurðlæknafélags Íslands frá 1961 til 1964. Hann fór fyrir læknafélögin á 7. ára­tugnum ásamt Arinbirni Kolbeinssyni og Þórarni Guðnasyni til Finnlands og Bretlands til að kynna sér rekstur læknamiðstöðva. Um ferð þeirra má lesa ítarlega og merkilega skýrslu í Læknablaðinu frá þessum tíma. Páll tók virkan þátt í stjórnmálum og sat meðal annars í borgarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn.

Páll varð ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og trygginga­ráðuneytinu þegar það var sett á stofn 1970 og gegndi því starfi þar til hann fékk lausn fyrir aldurssakir 1995. Hann tók þátt í undirbúningi að stofnun heilbrigðisráðu­neytisins og á engan er hallað þó hann sé talinn einn aðalhöfundur laga um heilbrigðisþjónustu frá 1973 sem í megindráttum gilda enn. Páll var á sínum dögum í ráðuneytinu læknum ráðhollur og mátti treysta á að þau málefni fengju framgang sem hann tók að sér.

Páll hefur ætíð verið virkur í félagsstarfi lækna og tjáð sig frjálslega um viðfangsefni og hagsmuni lækna, þó í embætti ráðuneytisstjóra hafi setið. Hann var fastur gestur á aðalfundum Læknafélags Íslands, tók virkan þátt í umræðum, var tillögugóður og reyndi að snúa hverju máli læknum og almenningi í hag.

Kjör Páls sem heiðursfélaga LÍ er m.a. til marks um það, að læknar virða þá félaga sína, sem gera emb­ættisstörf og stjórnsýslu í þágu lýðheilsu að ævistarfi.

Ragnheiður Guðmundsdóttir f. 20. ágúst 1915 í Reykjavík.

Ragnheiður Guðmundsdóttir lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 23. maí 1945. Hún var sjötta konan, sem lauk læknaprófi frá HÍ frá stofnun hans 1911. Hinar eru Kristín Ólafsdóttir, 1917, Katrín Thoroddsen, 1921, María Hallgrímsdóttir, 1931, Gerður Bjarnhéðinsdóttir, 1932, Sigrún Briem, 1940 og loks Ragnheiður 1945 eins og áður segir. Segja má að kona hafi útskrifast sem læknir frá HÍ með liðlega fimm ára fresti á þessum árum. Eru tímarnir sem betur fer breyttir í þessu sem öðru. Ragnheiður varð sérfræðingur í augnlækningum á Íslandi 1966 en áður hafði hún lokið sérfræðiprófi í augnlækningum frá Escuela Professional de Oftalmologia í Barcelona 1964. Ragnheiður bjó sig meðal annars undir sérfræði­viðurkenningu sína í Kaliforníu og í Maine í Bandaríkjunum.

Ragnheiður gegndi störfum sem læknir hér á landi, á Spáni og í Bandaríkjunum. Hún var augnlæknir á Landakotsspítala en skipulagði jafnframt kennslu sjúkraliða á þeim spítala og annaðist kennslu þeirra. Ragnheiður mun hafa átt frumkvæði að kennslu sjúkraliða hér á landi eftir að hafa kynnst starfi þeirra erlendis.

Ragnheiður starfaði að félagsmálum lækna. Hún var í stjórn augnlæknafélagsins og formaður þess 1972 til 1974. Ragnheiður hafði með höndum fjölda trúnaðarstarfa, sem hún valdist augljóslega til vegna læknisstarfsins. Hún sat í stjórnum Rauða kross deildar Reykjavíkur og í stjórn Rauða kross Íslands, í læknanefnd Öldrunarfélags Íslands og í öldungadeild Læknafélags Íslands frá 1994 til 1996. Ragnheiður er heiðursfélagi Golfklúbbs Reykjavíkur.

Það má hverjum manni vera ljóst, að það hefur ekki þótt sjálfsagt fyrir konu að hefja nám í læknisfræði á þeim árum sem Ragnheiður settist í læknadeild. Um það bera þær tölur glöggt vitni, sem ég nefndi hér að ofan. En Ragnheiður lét sér ekki almenna lækningaleyfið duga, heldur aflaði sér framhaldsmenntunar til sérfræðiviðurkenningar víða og á fáförnum Íslendingaslóðum.

Kjör Ragnheiðar sem heiðursfélaga Læknafélags Íslands er m.a. til marks um það, að læknar vilja sýna þeim konum virðingu, sem brutust gegn straumnum til mennta og voru sú hvatning kynsystrum sínum til að leggja stund á læknisfræði sem leitt hefur til jafnrar stöðu kvenna á við karla í læknadeild.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica